Skákhof Vinaskákfélagsins í Vin

Lög Vinaskákfélagsins 2024.

Kafli 1: Almennar greinar.

1. grein.

Félagið heitir Vinaskákfélagið.

Kennitala félagsins er: 630913-1010

2. grein.

Heimili félagsins og varnarþing er að Hverfisgötu 47, 101 Reykjavík.

3. grein.

Tilgangur Vinaskákfélagsins er að efla skáklíf meðal fólks með geðraskanir. Byggja skal á starfi og reynslu félagsins, sem hóf reglulegar skákæfingar í Vin Dagsetur, athvarfi Reykjavíkurborgar við Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Vinaskákfélagið hlúir að skáklífinu í Vin, jafnframt því að efna til viðburða í þágu fólks með geðraskanir, í samvinnu við athvörf, búsetukjarna, geðdeildir, félagasamtök og einstaklinga. Félagið leggur sig fram um að starfa í anda einkunnarorða skákhreyfingarinnar: Gens una sumus / Við erum ein fjölskylda.

4. grein.

Tilgangi sínum hyggst Vinaskákfélagið ná með skákæfingum, skákmótum, fræðslu og viðburðum.

5 grein.

Nýir félagar sem vilja koma inn í Vinaskákfélagið, þurfa að kunna mannganginn í skák og hafa áhuga á að tefla. Nýir félagar hafa ekki atkvæðisrétt á almennum félagsfundum eða aðalfundum fyrr en þeir hafa verið að minnsta kosti sex mánuði í félaginu. Ef hinn nýi félagi er kosinn í stjórn innan þess tíma, fær hann fullan atkvæðisrétt.

6. grein.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi. 

7. grein.

Vinaskákfélagið skal vera með 2 bankareikninga. Annar reikningurinn er almennur rekstrarreikningur félagsins og hinn er Minningarsjóður um Hrafn Jökulsson. Kosið verður 3ja manna nefnd sem sér um og ábyrgist um úthlutun úr Minningarsjóðnum. Sjá 19. grein.

Ekkert árgjald er, en aftur á móti geta meðlimir styrkt félagið með frjálsum framlögum á heimasíðu þess undir linknum „Styrktarlína“.

8. grein.

Vinaskákfélagið skal halda úti heimasíðu á meðan félagið er starfandi. Heimasíðan heitir „vinaskak.is“.

9. grein.

Rekstrarhagnaði félagsins skal varið í samræmi við tilgang Vinaskákfélagsins.

10. grein.

Stjórn Vinaskákfélagsins skal með öllum ráðum ná í sem flesta styrki og eða bakhjarla til að styrkja stöðu þess og sérstaklega fyrir Íslandsmót skákfélaga.

11. grein.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með 3/4 meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Geðhjálpar í Reykjavík.

Kafli 2: Aðalfundir og Stjórnarfundir.

12. grein.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 15 maí ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Auglýsa skal Aðalfundinn á heimasíðu Vinaskákfélagsins, „vinaskak.is“ og á Facebook grúbbu félagsins þ.e. Vinaskákfélagið (Spjall, fréttir og skákmót). Þó getur stjórnin samþykkt á síðasta stjórnarfundi fyrir aðalfund að fresta aðalfundi en þó ekki nema um 2 vikur eða til 30 maí. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Forseti setur fundinn.
 2. Kosning fundarstjóra.
 3. Kosning Ritara.
 4. Skýrsla stjórnar lögð fram.
 5. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
 6. Lagabreytingar.
 7. Kosning stjórnar.
 8. Önnur mál.

13. grein.

Stjórn Vinaskákfélagsins skal vera skipuð 5 félagsmönnum: forseta, varaforseta, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Einnig skal stjórnin vera skipuð 2 varamönnum. Kosning forseta skal halda á 2 ára fresti og fara fram á aðalfundi. Kosning varaforseta, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda skal halda árlega og fara fram á aðalfundi. Kosning 2 varamanna skal halda árlega og fara fram á aðalfundi. Forseti og gjaldkeri skulu hafa prokúru á reikningi Vinaskákfélagsins. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Forseti skal boða til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

14. grein.

Allar lagabreytingar Vinaskákfélagsins skulu berast í tölvupósti til stjórnar félagsins eigi síðar en viku fyrir Aðalfund.

15. grein.

Þeir félagar í Vinaskákfélaginu sem ætla að bjóða sig fram í embætti Forseta félagsins, verði að tilkynna framboðið í tölvupósti til stjórnar félagsins með minnst viku fyrir Aðalfund. Stjórn Vinaskákfélagsins kynnir síðan framboðið á Facebook grúbbu félagsins: Vinaskákfélagið (Spjall, fréttir og skákmót).

16. grein.

Félagsmenn geta krafist auka aðalfundar með undirskrift meirihluta félagsmanna og verður stjórnin þá að boða til auka aðalfundar.

17. grein.

Á milli stjórnarfunda getur stjórn Vinaskákfélagsins tekið minni háttar ákvarðanir á sérstakri grúbbu á Facebook sem heitir „Stjórnargrúbba Vinaskákfélagsins“. Aðeins stjórnarmenn og varamenn geta verið meðlimir á þessari grúbbu. Ef um meiriháttar ákvarðanir er um að ræða eins og t.d. um agabrot félaga, verður að boða til stjórnarfunda.

18. grein.

Á fyrsta stjórnarfundi Vinaskákfélagsins eftir Aðalfund þarf að ákveða þessa liði:

 1. Ákveða hverjir verði Liðstjórar Vinaskákfélagsins og hve mörg lið þeir senda á Íslandsmót Skákfélaga.
 2. Kjósa 3 menn í stjórn Minningarsjóð um Hrafn Jökulsson til 2 ára. Einn af stjórnarmönnunum verður að vera Gjaldkeri Vinaskákfélagsins.
 3. Kjósa 3 menn í fastanefndir Vinaskákfélagsins, en það eru Mótanefnd, Styrkja og fjáröflunarnefnd, Bókasafnsnefnd og Almannatengslanefnd.
 4. Ákveða hver eigi að sjá um Heimasíðu Vinaskákfélagsins www.vinaskak.is. Kosið til 2ja ára í senn.

Kafli 3: Minningarsjóður um Hrafn Jökulsson.

19. grein.  

Reglur um Minningarsjóð um Hrafn Jökulsson.

 1. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Hrafns Jökulssonar
 2. Stofnfé sjóðsins er 100.000 kr.
 3. Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum kann að áskotnast, gjafir og áheit sem sjóðnum kunna að berast, og tekjur sem stjórn sjóðsins kann að afla honum á annan hátt.
 4. Tilgangur sjóðsins er að styrkja Skákverkefni í nafni Hrafn Jökulssonar, s.s. skákmót, skákkennslu, skákferðir.
 5. Stjórn sjóðsins skipa þrír aðilar. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum. Kjörtímabil stjórnar minningarsjóðsins er tvö ár. Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum innan sjóðsstjórnar.
 6. Stjórn sjóðsins ber að upplýsa stjórn Vinaskákfélagsins um upphæð hverju sinni sem greitt er út af sjóðnum. Þau verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni, ber að tilkynna til stjórnar Vinaskákfélagsins.
 7. Reikningar sjóðsins skulu birtir árlega á aðalfundi Vinaskákfélagsins.
 8. Reikningur sjóðsins er í umsjá Vinaskákfélagsins.

20. grein.

Úthlutunarreglur úr Minningarsjóði um Hrafn Jökulsson.

 1. Stjórn sjóðsins sem skipaður er 3 mönnum og einn af þeim er Gjaldkeri Vinaskákfélagsins sér um að ákveða hver fær styrkinn það árið.
 2. Stjórnin ákveði hámarks upphæð sem hægt er að sækja um í Minningarsjóð um Hrafn Jökulsson og greitt er út af sjóðnum. Þetta á við um umsóknir í Minningarsjóðinn, en ekki þau verkefni sem nefndin ákveður að Vinaskákfélagið gerir.
 3. Auglýst verður eftir umsóknum 1. júlí ár hvert og frestur til að sækja um greiðslu úr sjóðnum rennur út eigi síðar en 1. september. Úthlutanir fara fram 1. nóvember – á afmælisdegi Hrafns Jökulssonar.
 4. Reglur um úthlutun er að styrkir fari í “skákverkefni”.
 5. Þeir sem sækja um styrk úr sjóðnum, verða að tilgreina í hvað styrkurinn eigi að fara.
 6. Áður en hægt er að sækja um styrk aftur, verða styrkþegar að skila greinagerð þar sem þeir segja í hvað styrkurinn hafi farið.

Kafli 4: Agabrot.

21. grein.

Vinaskákfélagið skal vera með Siðareglur.

22. grein.

Þegar félagsmaður verður uppvís að brjóta gegn Siðareglunum, getur stjórn Vinaskákfélagsins veitt honum áminningu.

23. grein.

Þegar félagsmaður verður uppvís að ítrekuðum brotum á Siðareglunum, getur stjórn Vinaskákfélagsins vísað viðkomandi félagsmann úr félaginu og gildir það frá 9 mánuði til að minnsta kosti í 2 ár. Stjórn Vinaskákfélagsins þarf síðan að samþykkja þann brott vikna félaga inn aftur.

24. grein.

Þegar stjórnarmaður verður uppvís að brotum á Siðareglunum getur meirihluti stjórnarmanna (3 af 5) lýst yfir vantrausti á hann og vísað honum úr stjórninni.

Samþykkt á aðalfundi 27 apríl 2024.