Sigurvegarar mótsins

Úrslit frá Minningarmóti Hrafns Jökulssonar í Norður Turni í Smáralind.

Þessa grein skrifar Guðjón Heiðar Valgarðsson og honum til halds og traust við greinina voru Ólafur Thorsson og Hjálmar Sigurvaldason.

XO skákmótið, minningarmót um Hrafn Jökulsson fór fram í Norðurturni Smáralindar miðvikudaginn 12.október síðastliðinn. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur viðburður fer fram þar en svæðið milli XO og Íslandsbanka er rúmt og bjart og hentar bersýnilega vel fyrir svona stóra viðburði.


Mótið var með sérstöku sniði en einungis voru tefldar 5 hraðskákir með 3+2 tímamörkum og stig notuð til að útkljá um sæti ef menn enduðu jafnir. Auk þess var tónlistarmaðurinn Pan Thorarensen að spila tónlist á milli skáka sem skapaði skemmtilega stemmingu á staðnum. E2-E4 platan með Manuel Gottsching sem er mörgum skákmönnum kunnug fór þar m.a. á fóninn.


Það þurfti ekki að fara í neina stigaútreikninga til að finna siguvegarann en hann endaði einn á toppnum með fullt hús. Sá maður var Hjörvar Steinn Grétarsson, Íslandsmeistari og stórmeistari og fékk hann millifærðar beint í bankann 100.000 krónur.

Í öðru sæti var Örn Leó Jóhannsson, sem virðist alltaf vera að bæta sig með hverri skákinni og þénaði hann 50.000 nýslegna skildinga, sem hann fékk afhenta í stórri fjársjóðskistu.


Þriðja sætið hreppti síðan hann Aleksander Dolmachuk Jónasson en það er frábær árangur og fyrir það halaði hann inn 20.000 íslenskum krónum. Í fjórða sæti var Ólafur B. Thorsson, einn af skipuleggjendum mótsins og sennilega einn skrautlegasti karakter íslenskrar skáksögu. Þegar hann teflir vel á enginn séns í hann en hann tapaði einni skák gegn þeim sem lenti í fimmta sæti. Það var svo stórmeistarinn og alræmdi grallaraspóinn hann Guðmundur Kjartansson. Vonbrigði fyrir hann að ná ekki hærra sæti, en svona er þetta í þessu hraða fyrirkomulagi, ein mistök í einni skák og þú ert úr leik. Arnar Ervin Gunnarsson var síðan í 6.sæti en hann hefur lengi verið í flokki okkar sterkari skákmanna.


Einnig voru veitt unglingaverðlaun fyrir 18 ára og yngri og féllu þau í skaut Alexanders D. Jóhannessonar. Alexandrar voru greinilega að gera gott mót þarna í Norðurturninum. Barnaverðlaunin fyrir 12 ára og yngri hlaut svo Ýmir Nói Jóhannson sem við vonum að eigi bjarta framtíð í þessum ævaforna leik sem þó nær jafnframt að vera endalaus uppspretta af nýjum hugmyndum og stefum. Í flokki 60 ára og eldri sigraði Áskell Örn Kárason sem ánafnaði verðlaunum sínum í áheitasjóð mótsins. Flott framlag hjá honum en á því safnaðist álitleg upphæð sem rennur til fjölskyldu Hrafns.


Í skipulagningu og kynningu þessa móts fór mikil vinna og pappírspár, það þurfti leyfi og það þurfti styrki. Það þurfti fréttaumfjöllun og þar fram eftir götum. Í þessu hlutverki var aðalskipuleggjandi Hjálmar Hrafn Sigurvaldason en honum til halds og trausts voru eins og áður kom fram, Ólafur B Thorsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson (undirritaður), veitingastjóri XO.  Auk þess voru fjölmargir sem styrktu mótið með minni áheitum. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir aðkomu sína að mótinu og vonum að allir hafi skemmt sér vel á þessu einstaka skákmóti.


Aðalstyrktaraðili: XO
Aðrir styrktaraðilar: Atvinnueign; Skómeistarinn (Smáralind); Toyota (Bílaumboð); Seðlabanki Kópavogs; Snjall Gámar; Betri Stofan; Arango ehf.; Snyrtistofan Hafblik; Fótur og Vellíðan; Land Lögmenn; NTV Skólinn; Gluggarnir ehf.; JT Verk ehf.; Air Atlanta; BENDIR Verslun með Hundavörur; SL Retail; TGI Fridays; Sætar Syndir; Mak’ai Reykjavík; Íslandsbanki (Smáralind); Snúran (Smáralind); Zara (Smáralind); Lyfja (Smáralind); Synir.is; Meba (Smáralind) og Heimkaup.

Sjá úrslit á mótinu: http://chess-results.com/tnr684215.aspx?lan=1&art=1

x

Við mælum með

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins 25 mars 2024.

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins verður haldið í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík, mánudaginn 25 mars kl. 13:00. ...