Frá Grænlandsmótinu í Vin, 2007

Skákfélag Vinjar

Arnar Valgeirsson höfundur greinar

Skákfélag Vinjar var formlega stofnað árið 2003 með það að markmiði að taka þátt í Íslandsmóti taflfélaga. Félagið er starfrækt í Vin sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir – stofnað og rekið af Rauða krossi Íslands frá 1993. Taflborðum fjölgaði snarlega í stofu athvarfsins eftir að Hrafn Jökulsson, Róbert Lagerman og Hróksfólk settu upp mót einn sumardag árið 2003. Þar voru mættir til leiks Luke McShane, Regína Pokorna, Ivan Sokolov og fleiri þokkalegir skákmenn!

Fjórum árum síðar stóðu 14 manns að stofnun (innsk.Stjórnar „keppnisliðs“) skákfélags Vinjar með þá Hrannar Jónsson, skákkennara hjá Hróknum og Fide-meistarann Björn Sölva Sigurjónsson í broddi fylkingar. Í dag eru félagsmenn yfir 50 talsins, gestir athvarfsins sem og vinir og vandamenn.

Vinjargengið var í fjórðu deild fyrstu tímabilin en fór svo upp í þá þriðju eftir tímabilið 2009-10, svo beinast lá við að vera með b-lið í þeirri fjórðu árið eftir. Mikill fengur var að fá alþjóðlega meistarann Hauk Angantýsson að borðinu eftir langt hlé sem og Jorge Fonseca sem lengi hefur verið vinur Vinjarmanna. Félagar hlakka til síðari hluta Íslandsmótsins nú í byrjun mars þar sem aðeins þarf að spýta í lófana. B-liðið siglir um miðja fjórðu deild enda eru þar tækifæri fyrir áhugamenn til að taka þátt í fyrsta sinn þó að vanari menn leiði liðið.

Jorge Fonseca og Haukur Angantýsson

Undanfarin ár hefur félagið haldið um 14 mót árlega, oftast í Vin en einnig í Rauðakrosshúsinu í Borgartúni, hjá Kjósarsýsludeild Rauða krossins í Mosfellsbæ, og komið að öðrum viðburðum. Árlega stendur félagið, í samstarfi við Hrókinn, fyrir deildamóti á Kleppsspítala og undanfarin sjö ár hefur það haldið upp á alþjóðlegan geðheilbrigðisdag með stórmótum. Fyrst í Ráðhúsinu, svo Perlunni, í Mjódd í samstarfi við Helli og tvö undanfarin ár í húsnæði TR við Faxafen í samstarfi við bæði TR og Helli. Fjöldi þátttakenda hefur aukist ár frá ári, byrjaði í um 30 en 79 tóku þátt í október 2010 og verður erfitt að toppa það.

Frá Grænlandsmótinu í Vin, 2007

Afmælismótin hafa verið vinsæl sem og allskyns þemamót. Má þar nefna „Glæpafaraldur í Vin“ þar sem allir þátttakendur fengu íslenska glæpasögu „með sál“ frá Braga Kristjónssyni og félögum í Bókinni og Morgan Kane-mótið þar sem þátttakendur voru átján sem þá var met. Kveðjumót Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þegar hún hætti sem forseti Skáksambandsins, og afmælismót Magnúsar Matthíassonar, formanns vinafélags Vinjar og SSON, drógu 27 manns að borðum við Hverfisgötuna. Metið var eftirminnilega slegið seinni hluta síðasta sumars er haldið var upp á þjóðhátíðardaga allra Norðurlanda samtímis og 36 manns tóku þátt. Það þykir gott á mánudegi klukkan 13:00. Skandinavíski leikurinn var skylda.

Fimm efstu í Morgan Kane mótinu; Tómas, Hrannar, Gunnar Freyr, Hrafn og Róbert

Markmið félagsins hefur ávallt verið að bjóða áhugafólki að koma og tefla sér til ánægju og gaman er þegar fólk sem æfði á unglingsaldri, en hefur hugsanlega dottið út vegna veikinda, kemur aftur að borðinu og tekur þátt í mótum. Þess má geta að nokkrir gestir athvarfsins nýta það með þeim hætti að koma og taka nokkrar skákir nánast daglega. Ekki skemmir það heldur fyrir þegar þrautreyndir keppnismenn ganga til liðs við félagið enda eru allir jafnir þegar sest er að borði og hvorki spurt um andlegan né líkamlegan heilsufarsferil!

Velvilji forvígismanna Skáksambands Íslands og síðar Skákakademíu Reykjavíkur í garð félagsins hefur hjálpað mikið og hvatt liðsmenn til dáða enda munar gríðarlega um að fá svo jákvæð viðbrögð sem félagið hefur fengið í gegnum tíðina. Má til sanns vegar færa að skákvinir Vinjar hafi heldur betur átt sterka innkomu þegar lá fyrir að starfseminni yrði hætt í Vin og safnað var liði – og fjármagni – athvarfinu til bjargar.

Björn Sölvi Sigurjónsson, Fide-meistari og snillingur á svo margan hátt, sem bar titilinn „jókerinn“ í liðinu, lést í desember síðastliðnum. Það fékk mikið á félagsmenn en hans var minnst með glæsilegu minningarmóti á Skákdeginum hinn 26. janúar en þá hefði kappinn orðið 63 ára. Björn kom einmitt sterkur inn eftir mjög langt hlé þegar félagið var stofnað.

Björn Sölvi heitinn heilsar borgarstjóranum, Jóni Gnarr, á jólamóti Vinjar 2011

Vinjargengið er þakklátt því skákáhugafólki, á öllum aldri, sem hefur komið og tekið þátt í viðburðum í athvarfinu undanfarin ár. Það er ljóst að baráttan gegn fordómum í garð fólks með geðraskanir hefur unnið stóra sigra með skákinni því foreldrar hika ekki við að skutla börnum sínum á mót í athvarfið og sækja þau kannski þremur tímum seinna að því loknu. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Yngsti meðlimur Skákfélags Vinjar er hún Lea sem er tvítug. Elstur er hann Árni sem er áttatíu og sjö og gefur ekki tommu eftir.

Skákáhugafólki er velkomið að koma við á Hverfisgötunni á mánudögum og taka nokkrar bröndóttar við félagsmenn. Og ekki má gleyma Vinjar-mótunum sem óhætt er að mæla með við alla. Þau eru verulega skemmtileg!

Gens Una Sumus.