Haukur með okkur á ströndum vorið 2013

Minningargrein um Hauk Halldórsson

Látinn er góður félagi okkar í Vinaskákfélaginu Haukur Halldórsson, en hann lést á Hjartadeild Landsspítalands aðfaranótt Laugardagsins 7 júlí 2018. Haukur er fæddur 7 desember 1966 og hefði orðið 52 ára á þessu ári. Jarðaför hans verður haldin í kyrrþey.

Ég man fyrst eftir honum þegar ég kom í Vin, húsi Rauða Krossins að Hverfisgötu 47 á haustmánuðum 2012. Þar sátu þeir félagar að tafli Haukur og Hjálmar Sigurvaldason. Fljóttlega bættist ég í hópinn og tefldum við margar skákirnar í Vin á þessum árum eða frá 2012 til 2017. Á þessu ári 2018 kom hann frekar sjalnar í Vin en áður. Hann var alltaf kátur og hress þegar hann kom í Vin og maður man sérstaklega eftir hinum skemmtilega hlátur sem hann rak stundum upp er eitthvað skemmtilegt gerðist. Hann var svolítið sérstakur, hann hvorki reykti né drakk, en eftir hverja skák, fór hann alltaf út á tröppur í 2 mínútur til að fá sér hreint loft. Oft þegar hann var að vinna okkur Hjálmar í skákinni, þá átti hann það til að fara syngja hin ýmsu lög og var það eitt af hans einkennum í Vin.

Oftar en ekki vorum við samferða: ég, Hjálmar og Haukur eftir að hafa teflt í Vin að ganga frá Vin og upp á Hlemm. Hann var góður að taka eftir smáatriðunum og margir frasar urðu til á okkar kynnum. Einhverju sinni þegar við vorum að ganga, fórum við eitthvað óvarlega út á götu og þá kom bíll og flautaði á okkur og sagði, „Watch your light“. Eftir þetta varð þetta að ódauðlegum frasa í margar vikur og þegar ég benti honum á að líklega væri útlendingurinn kominn til síns heima, þá bættist þetta við frasann. „Watch your light, útlendingurinn er líklega kominn til síns heima“. Síðan rak hann upp skellihlátur. Margt svona skemmtilegt skeði á okkar kynnum sem ég er því miður búinn að gleyma.

Ýmislegt gerði hann sér til dundurs, þegar hann var ekki að tefla í Vin. T.d. hafði hann mjög gaman að því að ferðast með strætó. Þá tók hann leið 11 frá Bjargi á Seltjarnarnesi þar sem hann átti heima og upp á Hlemm og tók þaðan leið 12 upp í Mjódd og þaðan aftur leið 11 niður í bæ. Þannig gat hann rúntað fram og til baka í strætó aðallega seinni part dags og á kvöldin.

Fyrir utan að tefla við okkur Hjálmar í Vin, þá átti hann tölvu með skákforriti sem hann tefldi við heima hjá sér. Ég man líka eftir að hann kom með okkur á skákhátíð á ströndum vorið 2013. Mig minnir að þetta hafi verið afmælis skákmót Jóhanns Hjartarsonar. Myndin af okkur hér í frontinn er akkuratt af strandarferðinni. Þarna eru á myndinni fyrir utan Hauk, ég, Hjálmar og Róbert Lagerman. Ég man eftir að við fórum með einkabíl norður á strandir og lengi á eftir talaði Haukur um það hvað þetta hefði verið hættulegur vegur, bratt og hátt niður að horfa stundum.

Haukur tefldi á mörgum mánudags skákmótum í Vin, en minnkaði það síðari árin. Hann var ágætis skákmaður og endaði í 1547 alþjóðlegum skákstigum. Síðasta skákmót sem hann tefldi á var Reykjavík Open mars 2018.

Við hér í Vin söknum hans, en nú er hann komin til himna og er örugglega að tefla við einhverja engla þar. Blessuð sé minning hans.

Kveðja, Hörður Jónasson varaforseti Vinaskákfélagsins.

x

Við mælum með

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins 25 mars 2024.

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins verður haldið í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík, mánudaginn 25 mars kl. 13:00. ...