Gauti Páll, Guðni, Hrafn og Róbert með sigurlaunin frá Air Iceland Connect

Guðni Pétursson sigraði á minningarmóti Hauks og tryggði sér farmiða til Grænlands!

Guðni Pétursson sigraði á minningarmóti Hauks Angantýssonar, sem haldið var á vegum Vinaskákfélagsins og Hróksins í Vin á mánudag. Þar með tryggði Guðni sér sigur í minningarmótasyrpu, sem tileinkuð var Hauki, Jorge Fonseca og Birni Sölva Sigurjónssyni, sem allir voru dyggir liðsmenn Vinaskákfélagsins. Sigurlaunin voru glæsileg: 100.000 króna gjafabréf frá Air Iceland Connect.

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins og verndari Vinaskákfélagsins, átti frumkvæði að því að minnast hinna föllnu félaga með þessum hætti, og lagði Hrókurinn til 2. og 3. verðlaun, alls 30.000 krónur.

Við upphaf mótsins flutti Hrafn tölu, og minntist Hauks Angantýssonar, sem um árabil var meðal sterkustu skákmanna Íslands. Haukur fæddist 2. desember 1948 á Flateyri í Önundarfirði og lést 4. maí 2012. Hann var fjölhæfur snillingur, lauk námi í efnafræði frá háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1973 og skipstjórnarnámi frá Stýrimannaskólanum 1975.

Haukur varð Íslandsmeistari 1976, en eins og Hrafn rifjaði upp, vann Haukur sinn mesta sigur þegar hann varð efstur á World Open í Philadelpia 1979, á undan stórmeisturum á borð við Anthony Miles og Walter Browne, sem þá voru meðal bestu skákmanna heims.  Hrafn minntist Hauks sem einstaks ljúflings og prúðmennis, sem tók sigrum jafnt sem ósigrum með bros á vör. Það hefði verið mikill heiður fyrir Vinaskákfélagið að hafa Hauk í sínum röðum.

Minningarmótið var síðan æsispennandi og bráðskemmtilegt. Fyrir mótið var ljóst að aðeins Guðni og Róbert Lagerman áttu möguleika á að sigra í mótaröðinni. Guðni hafði vinnings forskot á Róbert eftir minningarmótin um Jorge og Björn Sölva, og því ljóst að forseti Vinaskákfélagsins þurfti að bíta í skjaldarrendur til að ná efsta sætinu. Róbert sigraði í innbyrðis viðureign þeirra, en það dugði ekki til, því Guðni vann hinar skákirnar fimm af öryggi, og sigraði bæði á mótinu og syrpunni í heild.

Guðni hlaut alls 29 stig í mótunum þremur, Róbert 27, og hinn ungi og bráðefnilegi Gauti Páll Jónsson hreppti bronsið með 19 stig. Þegar Hrafn afhenti Guðna hin veglegu sigurlaun frá Air Iceland Connect í mótslok sagði hann að aðeins ein ljúf kvöð fylgdi: Að nota þau til að ferðast til Grænlands!

Úrslit á minningarmóti Hauks Angantýssonar: 1. sæti Guðni Pétursson 5 vinningar. 2.-3. sæti Róbert Lagerman og Gauti Páll Jónsson 4,5 v. 4.-6. sæti Loftur Baldvinsson, Þórir Benediktsson og Einar K. Einarsson. Aðrir keppendur voru Hjálmar Hrafn Sigurvaldson, Árni Ólafsson, Sigurður Ingason, Hrafn Jökulsson, Tómas Ponzi, Hörður Jónasson, Benedikt Þórisson, Björgvin Kristbergsson, Finnur Finnsson og Einar Einarsson.

Hér fyrir neðan eru félagarnir, Forseti Vinaskákfélagsins og Verndarinn.

Hrafn og Róbert hafa leitt starf Hróksins frá stofnun, árið 1998.

x

Við mælum með

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins 25 mars 2024.

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins verður haldið í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík, mánudaginn 25 mars kl. 13:00. ...