Ólafur Thorsson, Hjálmar Sigurvaldason og Guðjón Heiðar Valgarsson

Hrafn var dínamit.

Vinaskákfélagið heldur í dag (12 október 2022) minningarskákmót um Hrafn Jökulsson í Norður­ turninum í Smáralind. Hrafn var verndari félagsins alla sína tíð en þeir Hjálmar Hrafn Sigurvaldason, Ólafur Thorsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson segja mótið verða í hressari kantinum, eins og Hrafn hefði viljað.

Svona byrjar grein í Fréttablaðinu um þá félaga Hjálmar Hrafn Sigurvaldason, Ólafur Thorsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson, eftir blaðamanninn Oddur Ævar.

odduraevar@frettabladid.is

„Það er erfitt að ganga í fótspor Hrafns, en það er hægt að ganga í sömu átt,“ segir Ólafur Thorsson sem situr í mótsstjórn Vinaskákfélagsins og kemur að minningarmóti Hrafns Jökulssonar heitins sem lést í september úr krabbameini. Þeir félagar leggja áherslu á að mótið verði skemmtilegt og að viðtalið verði hressilegt, allt eins og Hrafn hefði viljað hafa þetta. „Ég verð að viðurkenna að það eru blendnar tilfinningar við að halda þetta skákmót fyrir hann,“ segir Ólafur hlæjandi. „Ég ímynda mér að Hrafn hefði sagt mér að vera ekki með þessa væmni og halda bara áfram að efla skákina. Svo við vildum bara gera það, fara í sömu átt og hann með ástina, gleðina og kærleikann í hjarta.“

Þeir félagar taka fram að allir séu velkomnir á mótið sem hefst klukkan 16.00 í dag og stendur til 18.30. Hrafn var verndari félagsins alla sína tíð en tilgangur þess er að efla skáklíf meðal fólks með geðraskanir. Frítt er fyrir 18 ára og yngri en 2.000 króna þáttökugjald og veglegir vinningar í boði. Guðjón útskýrir að þetta hafi átt að vera styrktarmót fyrir Hrafn. „Eftir að hann kvaddi lá því beinast við að breyta því í minningarmót. Við verðum með posa þar sem fólk getur lagt sitt af mörkum og það rennur beint til barna Hrafns auk þess sem allt sem verður eftir í kassanum að móti loknu rennur beint til þeirra.“

Þrímenningarnir eru ekki lengi að rifja upp sínar bestu minningar af Hrafni þegar þeir eru spurðir hvernig maður hann var. „Hann var goðsögn í lifanda lífi,“ segir Hjálmar sem kynntist honum fyrir tíu árum í gegnum Vinaskákfélagið. „Það hreinlega gustaði af honum og allt lék í höndunum á honum. Ég var jafnvel örlítið smeykur við hann fyrst, sem auðvitað var alger óþarfi, hann var hið mesta ljúfmenni sem vildi öllum vel. Það var virkilega ánægjulegt að hafa Hrafnakónginn, eins og við köllum hann, sem verndara Vinaskákfélagsins.“ Guðjón segir Hrafn hafa verið eins og eitt af náttúruöflunum. „Eldur, vindur, jörðin, vatnið og Hrafn. Hann lét ekkert stoppa sig og hafði endalausan drifkraft og orku.“ Ólafur hefur sína samlíkingu alveg á hreinu. „Hrafn var dínamít. Hann gat fengið allt til að blómstra. Það er mikill missir að honum en arfleifð hans er þvílík. Hvað get ég sagt? Hver sem er, sama hvað hann fæst við, gæti fundið andagift í verkum Hrafns. Hann var sannkallað ofurmenni. Svo var þessi einlægi kærleikur sem geislaði út frá honum í öllum hans verkum sem einkenndi hann og kristallaði hvað hann var góð og heilsteypt manneskja.“ Vakti allt af dvala Hjálmar segir að hans eftirminnilegasta reynsla af Hrafni hafi verið þegar hann fór með góðum hóp úr Vinaskákfélaginu til Trékyllisvíkur, norður á Strandir. „Hrafn var eins og gestrisinn landvættur. Margur reyndi oft að halda honum í böndum, já, því miður. En í sveitinni sinni var hann dásamlega óbundinn og þá var aldrei dauð stund. Þetta var stórkostleg ferð.“

Guðjón segist eiga sínar bestu minningar af Hrafni á Grand Rokk. „Hann var alltaf með einhver járn í burðarliðnum þar í kringum skákfélagið Hrókinn sem hann stofnaði,“ útskýrir Guðjón. „Svo var eitt skipti eftirminnilegt þegar hann var að halda skákmaraþon í Kringlunni árið 2006. Þá tefldi hann 250 skákir á 40 klukkutímum, sem er met enn þann dag í dag. Ég mætti þarna og tók eina skák við hann. Í miðri skákinni var eitthvert fólk farið að tala helst til hátt fyrir hans smekk svo að hann sussaði á það af ákveðni og sagði: Viljiði aðeins hafa þögn, ég er að tefla við einn sterkasta skákmann landsins hérna!“ segir Guðjón hlæjandi. „Það var auðvitað langt frá því að vera satt, en ég hafði lagt skákskóna á hilluna mörgum árum áður. Ég man samt að mér þótti voða vænt um þetta komandi frá honum. Truflunin kom þó ekki að sök og hann mátaði mig nú þarna á endanum.“ Ólafur segir að þegar hann hafi verið ungur maður að tefla hafi sér alltaf þótt Hrafn hálfgerður útlagi. „Hann var svo miklu meira en þessi venjulegi skákfélagsmálaforkólfur. Hann vakti allt af dvala og kom með nýjar hugmyndir og vinkla. Hrafn var í slagtogi við forseta, embættismenn, kónga og biskupa, og hann einhvern veginn reitskipti veröldinni. Mörgum varð um og ó, hann varð strax umdeildur. Það er mikill missir að honum.“

Úrslit úr XO skákmótinu – Minningarmót um Hrafn Jökulsson: Chess-Results Server Chess-results.com – XO SKÁKMÓT NORÐUR TURNAR / SMÁRALINDAR – MINNINGARMÓT HRAFNS JÖKULSSONAR

x

Við mælum með

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins 25 mars 2024.

Páskaskákmót Vinaskákfélagsins verður haldið í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík, mánudaginn 25 mars kl. 13:00. ...